Skip to the content

Umhverfi Sólheimajökuls og Mýrdalsjökuls

Mýrdalsjökull

Mýrdalsjökull er syðsti jökull á Íslandi og sá fjórði stæðsti að flatarmáli, hann þekur um það bil 600 km2 eða um 130 km3 af ís. Undir jöklinum er síðan eitt öflugasta eldfjall landsins, eldfjallið Katla. Kalta er gríðarstór en askja eldfjallsins er um 110 km2. Meðalþykkt jökulsins er um 220 metrar en sumstaðar er þykktin allt að 750 metrar. 

Goðabunga er hæsti tindur jökulsins og er hann um 1515 metrar á hæð, næst hæsti er Háabunga sunnan í Mýrdalsjökli um 1500 metrar. Báðir þessir tindar eru þaktir snjó og er hæð þeirra því eitthvað breytileg eftir árstíma. Mikil snjósöfnun er á Mýrdalsjökli og getur þykkt snjóalaga eftir veturinn verið allt að 20 metrar. Þessi mikla snjósöfnun er vegna mikillar úrkomu á svæðinu en ársúrkoma á jöklinum getur verið allt að 7000 mm. (algeng meðalúrkoma á láglendi um 1000 mm á ári).

Margir skriðjöklar ganga niður úr Mýrdalsjökli, stæstur þeirra eru Sléttujökull til norðurs og Kötlujökull til Suðausturs. Þessir skriðjöklar hafa mótað landið á þessu svæði, Sólheimajökull sem gengur suður úr Mýrdalsjökuli hefur grafið sig í gegnum landslagið og undir jöklinum er djúpur dalur sem nær allt að 150 niður fyrir yfirborðið fyrir framan jökulinn. Árið 2007 byrjaði að myndast þar jökullón sem hefur farið ört stækkandi síðan. Undan þessum skriðjöklum koma jökulhlaup þegar Kötlugos verða. 

Algengast er að jökulhlaup frá Kötlu fari niður Mýrdalssand fyrir austan Vík en einnig hafa hlaup komið undan Sólheimajökli, síðast lítið hlaup árið 1999. Í Kötlugosinu árið 1918 kom gríðarmikið jökulhlaup undan Kötlujökli og er takið að fjarann á því svæði hafi gengið fram um 2 kílómetra vegna þess.  Einnig er þekkt að hlaup hafi farið niður Markarfljótsaura síðast fyrir um 1500 árum síðan, sjást ummerki um það í Drumbabót í Fljótshlíð þar sem má finna trjástofna sem brotnuðu í slíkum hamförum.

Sólheimajökull

Eins og áður segir þá gengur Sólheimajökull suður úr Mýrdalsjökli. Jökullinn er um 15 kílómetra langur ef miðað er við öskjubrún Kötlu og eins til tveggja kílómetra breiður. Sólheimajökull hefur svorfið umhverfið á þessu svæði og myndað djúpan dal. Á síðustu árum hefur jökulinn hopað mikið að meðaltali um 50 til 60 metra á ári. Árið 2007 byrjaði að myndast jökullón fyrir framan jökulsporðinn sem hefur farið ört stækkandi síðan og er nú um 0,3 km2 að flatarmáli og um 60 metra djúpt. Ef fram heldur sem horfir þá má áætla að lónið geti orðið allt að 150 metra djúpt og um 4,5 kílómetrar að lengd með tímanum. 

Frá Sólheimajökli fellur jökuláin Jökulsá á Sólheimasandi. Vatnsmagn árinnar getur verið mjög breytilegt frá því að vera nánast lækur á köldum vetrum í að vera mórautt jökulfljót í leysingum á vorinn og sumrinn. Jökulvatnið ber með sér brennisteinsgas sem á rætur að rekja til jarðhitasvæða undir Mýrdalsjökli. Ef mikið magn af brennsteinsgasi kemur niður með ánni má finna af henni sterka brennisteinsfýlu. Vegna þessarar fýlu er áin oft kölluð Fúlilækur. Fyrr á öldum rann áin fram Jökulsárgil eða allt til ársins 1680 eða svo. Gilið er í dag fallegt móbergsgil með litlum vötnum og fram úr því rennur Sýslulækur, en hann er mörk Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. 

Sólheimasandur er eins og aðrir sandar á Suðurlandi byggður upp af jökulhlaupum og framburði jökuláa. Hann er víðáttumikill og lítt gróin og skapar skemmtilegt mótvægi við gróin fjöll og grösugar hlíðar. 

Katla

Eldfjallið Katla hefur í gegnum tíðina verið eitt öflugasta og virkasta eldfjall á Íslandi. Talið er að Kalta hafi gosið að minnsta kosti 20 sinnum frá landnámi Íslands. Gosin hafa verið misstór, allt frá því að vera lítil gos sem ekki hafa komið upp úr jöklinum en hafa valdið litlum jökulhlaupum eins og talið er hafa gerst árið 1999 þegar kom lítið jökulhlaup undan Sólheimajökli og það sama má segja um lítið jökulhlaup sem kom niður farveg Múlakvílslar árið 2011. Í báðum tilfellum er talið að um lítil eldgos hafi verið að ræða. 

En Katla hefur líka látið mikið að sér kveða og hefur oft valdið mikilli eyðileggingu með öflugum eldgosum. Stæðsta og öflugasta Kötlugos frá landnámi var líklega árið 1755, það framleiddi mikið af lausum gosefnum en einnig var jökulhlaupið samfara því gríðarstórt. Sama má segja um eldgosið í Kötlu árið 1918 það var stórt og olli miklu tjóni. 

Eldstöðin Katla er ekki einungis bundin við öskjuna í Mýrdalsjökli um er að ræða eldstöðvakerfi sem teygir sig til norð austurs undan jöklinum í átt að Vatnajökli. Það gaus á þessu sprungukerfi um  árið 939 þegar Eldgjá myndaðist frá því gosi flæddi að talið er um 20 km3 af hrauni sem er mesta hraunrennsli á Íslandi frá landnámi. Talið er að Eldgjárhraunið þekji allt að 800 km2 svæði og hafi náð til sjávar í Álftaveri. 

Mýrdalssandur

Svæðið frá Múlakvísl í vestri og að Álftaveri í austri kallast Mýrdalssandur. Svæðið er að mestu leiti byggt upp eftir jökulhlaup í Kötlu ásamt framburði jökuláa á Svæðinu. Mýrdalssandur er að mestu lítið gróinn, þó svo að gróður hafi sótt í sig veðrið þar á undanförnum árum. Þar má meðal annars finna nokkuð mikið af Lúpínu. Á sandinum er Hjörleifshöfði en talið er að hann hafi staðið í sjó fram við landnám en jökulhaup og framburður með þeim hafi síðan lengt ströndina til suðurs frá þeim tíma. 

Hafursey heitir fjall á miðjum sandinum of þar fyrir innan er Kötlujökull. Svæðið frá Kerlingardal og inn að Mýrdalsjökli er mjög fjölbreytt og fallegt, með þröngum giljum og fallegum mosagrónum móbergsfjöllum. Þar má finna fallegt tjaldsvæði sem kallast Þakgil.

Leyfi og gæðavottanir